Heima / Atvinna

Atvinna

Það er getur verið hægara sagt en gert að finna góða vinnu en það þýðir þó ekki að það sé algjörlega ógerlegt. Vertu að minnsta kosti viss um að þú hafir prófað alla möguleika í stöðunni.

Ef þú ert fyrir það það fyrsta ekki viss um hvað þú vilt starfa við þá geturðu nýtt þér vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Næstu skref, sem hefur tekið saman ítarlega lýsingar á ríflega 200 störfum á íslenskum markaði.

Fyrir utan að fylgjast með auglýsingum í blöðum og á vefnum þá er um að gera að skrá sig á atvinnumiðlanir, þar sem störf eru einstaka sinnum aðeins í boði fyrir þá sem hafa skráð sig hjá því ráðningarfyrirtæki. Þar getur þú einnig fundið upplýsingar um hvernig bera skuli sig að við atvinnuleit.

Hvernig á annars að skrifa ferilskrá og kynningarbréf? Á eftirfarandi síðum færð þú góðar hugmyndir:

Athugaðu að ef þú ert á aldrinum 17–25 ára þá getur þú leitað þér ráðgjafar hjá Hinu Húsinu, auk þess sem háskólar geta einnig veitt þér aðstoð. Ef þú ert eldri en 20 ára og hefur ekki lokið framhaldsskóla þá getur þú kynnt þér vef Menntatorgs en honum er ætlað að veita atvinnulausum í þeim markhóp ráðgjöf og upplýsingar um nám.

Ekki vera hrædd/ur við að fara óhefðbundnar leiðir í þinni atvinnuleit. Ertu í leit að þess konar starfi sem sjaldan er auglýst? Ef þú veist við hvað þú vilt vinna, eða jafnvel hvar, þá er ekki vitlaust að fylgja slíkum fyrirtækjum á samfélagsmiðlum eða gerast áskrifandi að blogginu þeirra.

Slík fyrirtæki byrja nefnilega gjarnan á því að deila atvinnuauglýsingum á sinni eigin síðu eða síðum. Það væri heldur ekki vitlaust að senda draumafyrirtækinu kynningarbréf um þig – hver veit, þau gætu haft þig í huga þegar það losnar staða næst. Þá getur þú einnig nýtt þér öpp líkt og Alfreð, sem sendir upplýsingar um auglýst störf beint í símann þinn.

Ef þú átt erfitt með að finna þér atvinnu þá er ekki vitlaust að nýta tímann til þess að ná þér í meira nám, hvort sem um er að ræða endurmenntun, nám í tölvuskóla eða hvers konar námskeið sem þér finnst áhugavert – allt slíkt gerir ferilskrána þína meira aðlaðandi og gæti hjálpað þér við að finna rétta starfið í framtíðinni.

Alls konar úrræði eru í boði fyrir atvinnulausa sem vilja komast aftur út á atvinnumarkaðinn, en Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur tekið saman lista yfir það sem er í boði af hálfu ríkis, borgar og félagasamtaka, en þar má til að mynda nefna Nýttu kraftinn, sem veitir atvinnulausum hvatningu og stuðning. Þá hefur Rauði Krossinn einnig tekið saman ýtarlegan bækling yfir þær frístundir sem eru í boði fyrir lítinn pening eða ekki neitt.

Ef þú ert með góða hugmynd að því hvað þig langar að vinna við þá gætir þú stofnað þitt eigið fyrirtæki. Eftir hrun fóru margir frumkvöðlar af stað með hugmyndir sínar, en það þýðir að auðveldara er en áður að fá aðstoð og upplýsingar um slíkt. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur til að mynda tekið saman yfirlit yfir þá styrki sem eru í boði, auk þess sem íslensk síða að fyrirmynd Kickstarter hefur litið dagsins ljós, kölluð Karolinafund, en þar getur þú fengið fólk til þess að styrkja hugmyndina þína. Þá mæli ég einnig með síðunni Frumkvöðlar.is.

Að lokum má benda á að ef þú hefur áhuga á að vinna erlendis þá er ýmislegt í boði, ekki hvað síst fyrir ungt fólk.