Heima / Ferðalög

Ferðalög

Ert þú á leið í ferðalag en veist ekki ennþá hvert? Þá er um að gera að tékka á lista Fararheill.is yfir ferðaskrifstofur landsins en þar ættir þú að geta fundið réttu ferðaskrifstofuna og ferðalagið fyrir þig. Ekki gleyma hins vegar að óþarfi er fyrir Íslendinga að ferðast með íslenskum ferðaskrifstofum – þú getur rétt eins keypt þér flug til London og ferðast þaðan með enskri ferðaskrifstofu ef það hentar þér betur.

Leitarvélar líkt og Dohop.is munu gefa þér upp bestu verðin hverju sinni auk þess sem er ráðlegt er að skrá sig á póstlista hjá íslensku flugfélögunum IcelandAir og Wow Air til þess að fá tilboðin þeirra beint í pósthólfið. Ekki má gleyma því að easyJet hefur aukið töluvert við sín flug til og frá Keflavík.

Ef þú ert hins vegar ekki í stuði fyrir þetta týpíska liggja-á-strönd-helgarferð-til-stórborgar ferðalag sem margir Íslendingar leggja upp í þá eru að sjálfsögðu aðrir valkostir í boði. Ef þig langar til dæmis að vera erlendis lengur en yfir helgi eða í tvær, þrjár vikur þá er kannski tími til kominn að leggja upp í heimsreisu. Þá væri heldur ekki verra að ferðast um heiminn í snekkju!

Ef þú ert að leita þér að ódýrari valkost þá gæti málaskóli eða au-pair vinna hentað þér betur. Ef þú vilt hins vegar leggja þitt af mörkum, og jafnframt læra nýtt tungumál á meðan, þá ættir þú að skoða sjálfboðaliðastarf erlendis.

Ef þú ert á aldrinum 16–25 ára getur þú kynnt þér starfsemi Hins Hússins en starfsfólkið þar getur kynnt þig fyrir þeim möguleikum sem í boði eru ef þig langar að ferðast eða vinna erlendis.

Þar getur þú til dæmis fengið upplýsingar ef þú hefur áhuga á að komast í Alþjóðleg ungmennaskipti, Veraldarvini, við að komast að í Nordjobb eða við að fá hjálp frá Evrópsku vinnumiðluninni Eures, nú eða ef þú hefur verkefni sem gæti verið styrkt af Evrópu Unga Fólksins. Ef þú ert á þessum aldri þá má einnig benda á Interrail sem góðan valkost fyrir þá sem eru yngri en 25 ára, enda eru miðarnir ódýrari fyrir þann aldurshóp.

Eitt er víst: Það er um nóg að velja og enginn ástæða er því fyrir þig að hanga heima á klakanum ef þú vilt sjá heiminn. Skoðaðu valkosti þína, taktu ákvörðun og taktu svo af skarið!