Heima / Ferðalög / Gisting

Gisting

Það er alls ekki ókeypis að ferðast um heiminn eins og þú veist best sjálf/ur en engu að síður er ýmislegt í boði fyrir þá sem vilja ferðast en hafa ekki mikinn pening á milli handanna.

Farfuglaheimili bjóða upp á ódýra gistingu sem auðvelt er að panta sér á síðum líkt og Hostelbookers.com eða Hostelworld.com, svo dæmi séu tekin. Það er happaglappa hversu góð þau eru en ef þú ert fær um að að eyða einni eða tveimur nóttum á ekki svo frábærum gististað þá geturðu sparað þér smá pening. Enn ódýrari valkostur er að nýta sér Couchsurfing, sem er alþjóðlegt samfélag þar sem þér gefst kostur á að bjóða fram þinn eigin sófa til ferðalanga eða fá gistingu á þínu ferðalagi.

Couchsurfing er algjörlega frítt, þó það sé ekki vitlaus hugmynd að koma með eitthvað til að þakka fyrir sig, gjöf eða mat, en kosturinn við þetta fyrirkomulag er að þú kynnist manneskju sem getur gefið þér góð ráð um sína heimaborg. Þá er einnig hægt að nýta sér þetta samfélag til þess að hitta aðra ferðalanga sem eru í, eða á leið til sömu borgar og þú.

Aðrir valmöguleikar innihalda húspössun, þar sem þú getur skráð þig á síður eins og Housecarers.com eða Mindmyhouse.com. Þetta er hentugt ef þig langar að ferðast til landa sem töluvert dýrt er að ferðast til, líkt og Bandaríkjanna eða Ástralíu. Athugaðu að þú ert líklegri til að verða fyrir valinu ef þú ert til í að hugsa um dýr fjölskyldunnar á meðan á fyrirkomulagi ykkar stendur, en það er kannski lítið mál fyrir frítt húsnæði sem þú færð jafnvel að vera í í marga mánuði í senn.

Fyrir þá sem eru jafnvel með fjölskyldu en langar að taka pásu frá Íslandi þá má einnig benda á vistaskipti, sem eru að verða æ algengari. Ef þú hefur áhuga á slíku má benda á alþjóðlegar þjónustur líkt og Homelink.orgHomexchange.com eða Homebase-hols.com. Þetta er sérstaklega hentugt fyrir Íslendinga þar sem Ísland verður æ vinsællri áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn sem hafa mikinn áhuga á slíkum vistaskiptum eins og ferdalangur.net hefur til dæmis skrifað um.

Ferdalangur.net hefur einnig tekið saman sparnaðarráð fyrir ferðalög erlendis og bendir þar á síður sem hjálpa þér að finna ódýra gistingu líkt og Servas, Women welcome women, heimavistir háskóla og bækur um – áhugavert nokk – gistingu í klaustrum víða um Evrópu! Að lokum má einnig benda á vefinn Heimsreisa.is, sem hefur tekið saman upplýsingar um góðar bókunarsíður.