Heima / Nám

Nám

Þá er komið að því, þú ert ákveðin/nn að hefja nám. Möguleikarnir eru hins vegar ótalmargir en ef þú ert á leið í framhaldsskóla þá er spurning hvað hentar þér, menntaskólar eða iðnnám? Hvaða skóli og braut er sú rétta fyrir þig?

Hvort vilt þú frekar hefja háskólanám hér á landi eða erlendis? Ertu ekki tilbúin/nn að leggja í margra ára háskólanám? Gæti tölvuskóli verið betri valkostur? Eða vantar þig kannski frí frá hefðbundnu námi og dreymir um tungumálanám í heitari löndum?

Það er um margt að velja og númer eitt, tvö og þrjú er að leggjast í sjálfskoðun og komast að því hver þú ert og hvað þú vilt gera við þitt líf. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur tekið saman lýsingar á um 100 námsleiðum á vefnum Næstu skref sem geta gefið þér hugmynd um hvað þig gæti langað að læra.

Flestir menntaskólar bjóða jafnframt upp á áhugasviðspróf sem geta gefið vísbendingu um hver sé rétta áttin fyrir þig, auk þess sem þú getur alltaf spjallað við námsráðgjafa sem getur aðstoðað þig við að taka ákvörðun.

Sumir fá ekki mikið út úr slíku áhugasviðsprófi en aðrir geta fengið góðar vísbendingar. Sumir vita hvert þeir ætla sér frá byrjun á meðan það tekur lengri tíma fyrir aðra að uppgötva hvaða stefnu það vill taka í lífinu. Það er í lagi líka.

Það sem skiptir mestu máli er að þú hlustir á sjálfa/n þig og passir að láta þína drauma rætast, hverjir sem þeir eru, í stað þess að gera það sem fjölskyldan og vinirnir vilja að þú gerir, eins vel og þeir meina. Það er nefnilega þannig að þeim sem gengur vel í lífi og starfi er það fólk sem þorir að gera það sem það vill og leggur mikla vinnu á sig til að gera það að veruleika.